Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Ísland Group
Hvenær eigum við að fá góðar fréttir af ástandinu á Íslandinu GAMLA og góða?
Ég verð að viðurkenna að mér finnst óskiljanlegt allt þetta tal um NÝJA Ísland og nýja banka. Við, stoltir Íslendingar byggjum á gömlum grunni. Við höfum komið okkur áfram í gegnum tíðina á þessum gamla grunni og ættum að halda okkur við hann. Eða á kannski að breyta nafni landsins í Ísland Group? Erum við ekki búin að fá nóg af svoleiðis vitleysu?
Það er tímabært að við fáum að vita hvað stjórnvöld eru að gera. Þó það sé virðingarvert að búið sé að ákveða að minnka bruðlið í utanríkisráðuneytinu og jafnvel á fleiri stöðum þá finnst mér það ekki endilega vera það sem ríkisstjórnin á að vera að eyða kröftum sínum í. Það ætti að duga að senda minnisblað til stofnana um að spara umtalsvert og ríkisstjórnin ætti að beina kröftum sínum eingöngu að tvennu: upplýsa þjóðina um hvað er verið að gera og finna þá peninga sem vantar. Hvernig væri nú að ráða sér til fulltingis einhverja góða menn og konur sem ekki hafa verið tengd bönkunum til aðstoðar? (og að sjálfsögðu íslenska, við verðum að minnka atvinnuleysið).
Og Geir þú bara verður að fara að fylgjast með því sem er að gerast. Þú ættir að vera sá sem er með á hreinu hvenær á að taka umsóknina okkar fyrir hjá IMF og fá skýringar á því hvers vegna er alltaf verið að fresta þessu.
Kvíðin og reiðin í þjóðfélaginu eykst með hverjum deginum sem líður. Áhrifin sem það hefur á landann geta verið gífurleg og langvarandi. Við verðum að reyna að láta ekki þessar tilfinningar taka af okkur völdin þannig að við getum ekki hugsað skýrt og unnið að því sem við eigum að vera að vinna að. Óvissa eykur kvíða, óvissa eykur reiði. Við verðum að fá að vita hvernig staðan okkar verður í framtíðinni. Við getum ekki beðið eftir því lengur. Eigum við næga fjármuni til að stækka geðdeildirnar þannig að þær rúmi stóran hluta þjóðarinnar?
Áhrif tilfinninganna okkar geta verið þau að við hættum að virka. Við eigum erfitt með að mæta í vinnuna, þeir sem eru það heppnir að hafa vinnu. Hæfni okkar til að hugsa um fjölskylduna okkar, elda, þrífa, þvo og kaupa í matinn, skerðist. Við eigum erfitt með að fara út á meðal fólks því það er erfitt að þurfa að ræða aðstæður sínar við aðra sem kannski ekki eru í eins slæmum málum. (Meira um áhrif tilfinninganna með því að smella á myndina hér til hliðar).
Við þurfum að auka samkenndina, við þurfum að standa saman, við þurfum að skilja að vonandi eru allir að reyna að gera sitt besta, þó svo okkur finnist það ekki nógu gott. Þeir sem ekki treysta sér til að gera sitt besta með hag allrar þjóðarinnar í huga eiga að víkja og hleypa þeim að sem tilbúnir eru í verkefnið. Nú skipta flokkar ekki máli, það er í raun aðeins eitt málefni í gangi. Koma fjármálum þjóðarinnar í víðasta samhengi í viðunandi horf. Þegar það er komið þá geta menn haldið áfram að rífast um flokkapólitík.
Og meðan við vitum ekki hverjir eru sökudólgarnir, þá megum við ekki berja hvert á öðru.
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
Farið sparlega með gómsæt íslensk matvæli.....þau á að borða með bros á vör ;)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Gylfi og Jón
Þeir vita lausnina...geta svo sett upp ráðgjafarstofu fyrir almenning og nýtt krafta alþingismanna sem hvort sem er eru ekki að gera neitt á þinginu nema þrefa, til að svara fyrirspurnum almennings um hvernig eigi að komast af næstu mánuði.
Alþingismenn eru hvort sem er okkar starfsmenn og nú þegar á launum svo það verður ekki aukinn kostnaður af þessu verkefni.
Og ég er viss um að þeir gætu haldið utanum hverjir eru að lána okkur og hversu mikið.
Allar hliðar séu skoðaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Eurovision
Ein hugmynd
Getur fjármálaráðherra ekki haft lista á síðu ráðuneytisins um hverjir eru að lána okkur og hversu mikið? Við getum þá notað hann til viðmiðunar þegar við kjósum lag í Eurovision næsta vor.
Meiri peningar....fleiri stig.
Verst að Færeyjar eru ekki með í Eurovision
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Samkennd-réttlætiskennd
Áhrif kreppunnar ætla að verða afar mismunandi og margvísleg.
Mér finnst nú athyglisvert að hlusta á /lesa um þá samkennd og réttlætiskennd sem virðist ríkja á Klakanum. Þjóðin er að þjappa sér saman og sækja til baka í gömul gildi. Mikið held ég nú að við höfum gott af því.
Það minnti mig á gamla sögu. Það gerðist að hausti til árið 1988 (að mig minnir), í bongóblíðu á sunnudegi. Rafmagnið fór af á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarbúar fengu alls konar skrítnar hugmyndir sem reifaðar voru í síðdegisútvörpunum vikuna á eftir. Sumir héldu að það hefði verið ráðist á landið, sumir héldu að það væri verið að fremja skemmdarverk. Fáum datt í hug að þetta væri einfaldlega bilun sem hefði komið upp í rafkerfinu! En það sem kom skemmtilega út úr þessu (og rataði í skaupið það árið) var að fólk þurfti að fara aftur til fortíðar og finna sér eitthvað að gera sem ekki krafðist rafmagns. Ég man sérstaklega eftir einni ungri stúlku sem hringdi og sagðist hafa verið á leið til bestu vinkonu sinnar og þær ætluðu að fara að horfa á vídeó saman. Það var náttúrulega ekki hægt sökum rafmagnsleysis. Þá voru góð ráð dýr, hvað áttu þær að gera? Niðurstaðan var að þær spjölluðu saman, þessar tvær bestu vinkonur. Það var alveg ný reynsla fyrir þær, þær höfðu aldrei gert það áður!! Og fannst það bara skemmtilegt og höfðu rætt um að gera þetta fljótlega aftur.
Tala saman, taka slátur, föndra jólaskraut og jólagjafir. Kerti og spil.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)